Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Böndin á verðbólguna með breyttu peningakerfi.

 

Eitt mikilvægasta samfélagsverkefnið er að ráðast að rótum verðbólguvandans.  Í grunninn er þetta í fyrsta lagi aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka og í öðru lagi gerbreyttir starfshættir viðskiptabankanna eftir aðskilnaðinn. 

Í febrúar 2013 kom gott verðbólguskot þannig að gamla sagan viðheldur sér ma. með ótímabærri og vondri hækkun verðtryggðra húsnæðislána.  Við erum sem sagt enn og áfram að kljást við of mikla verðbólgu hér á landi sem má að hafi verið að jafnaði um 6% á tímabilinu frá 2009 til 2013.  Tíðrædd verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eru 2,5%

En hver er helsta ástæða verðbólgunnar á Íslandi?  Gjaldmiðilinn féll mikið ár árunum 2007 og 2008 en hann hefur þó haldið sér eða öllu heldur verið haldið á svipuðu róli frá því 2009 þegar einn bandaríkjadalur fór yfir 120 ISK.  Gjaldmiðilinn styrktist reyndar lítillega árið 2011 en hefur haldið sér yfir 120 ISK fyrir USD nú á annað ár.  Svarið virðist því ekki liggja í breytingum gjaldmiðils gagnvart erlendum myntum.

Ef við lítum okkur nær er auðvelt að greina vandann.  Ótamin peningamyndun í viðskiptabönkunum er verulegur þáttur í hagsveiflum hér á landi.  Peningaprentun án innistæðu þýðir bara verðbólga, það hefur sannast í gegnum árin hjá fjölda þjóða.  Hér á landi eru í raun litlar eða engar hömlur á stöðugri peningamyndun innan viðskiptabanka og það sem verra er að hagur þeirra liggur í peningaprentun vegna myntsláttutekna og um leið með því að skapa verðbólgu ofan á verðtryggðu jafngreiðslu útlánin, vextir á vexti ofan.  Peningar eru framleiddir úr engu með bókhaldsfærslum í hvert skipti sem útlán eiga sér stað og jafnvel þegar við notum debetkortið okkar.  Okkar litla þjóð og sá hagvöxtur sem við búum við nær engan veginn að halda í við þessa aukningu á peningamagni sem hefur átt sér stað undanfarin ár.  Þá má nefna að Bandaríkjamenn eiga einnig við sama myntsláttuvandamál frjálsu viðskiptabankanna að stríða, sú auðuga þjóð sem er hætt að ráða við eigin skuldavanda.

Peningamagn

Til þess að koma böndum á þessa peningamyndun innan viðskiptabankanna þarf þjóðarsátt um breytingar á bankakerfinu hjá okkur.  Þetta er nýstárleg aðferð sem byggir ma. á gömlum kenningum Irving Fisher (1936) þar sem leitað er aftur til upphafstíma bankastarfsemi, þar sem ekki var lánað út úr bönkunum nema innistæða væri fyrir útlánum.  Fjárfestingabankar sæju um aðra fjármálastarfsemi en hefðbundna bankastarfsemi viðskiptabankanna.

Það er einmitt sú lausn sjónum er beint að hér.  Aðferðin er kölluð á fagmáli að skipta úr brotahlutakerfi yfir í heildarhlutakerfi þar sem peningamyndun er aðskilin frá útlánastarfsemi.  Viðskiptabankarnir koma ekki til með að hafa á höndum óbundna innreikninga heldur liggja þeir peningar í Seðlabanka Íslands.  Það er svipað og að setja peninga í bankahólfi án ávöxtunar.  Það þýðir að svokölluð 100% bindiskylda verður sett á allar lausar innstæður.  Viðskiptabankarnir geta síðan boðið skammtímalán með því að nota bundna innlánsreikninga til þess að endurlána það fé sem þeim er treyst fyrir af viðskiptamönnum þeirra.  Allar ákvarðanir um magn peningamyndunar yrði í höndum sérstakrar óháðrar nefndar á vegum Seðlabanka Íslands sem mæti reglulega þörf á peningamyndun í landinu.  Myntsláttuhagnaðurinn þe. mismunurinn á kostnaði við peningaprentun og virði tilbúinna peninga, auk vaxta kæmi því í hlut Seðlabankans  en hann getur verið á bilinu 0,3% til 1,5% af landsframleiðslu.  Þennan hagnað má nota ma. til þess að greiða niður erlendar skuldir þjóðararinnar eða til frekari uppbyggingar á grunnþjónustunni.

Helstu kostir þessa kerfis er að ekki verður þörf á innistæðutryggingasjóði þar sem bankaáhlaup verður ekki lengur mögulegt, myntsláttuhagnaður liggur hjá ríkinu eins og fyrr er komið inn á, og peningamagni verður stjórnað í samræmi við hagvöxtinn og böndum yrði komið á stjórnlausa fúnun á innviðum fjármálakerfisins sem á sinn þátt í að skapa tíðar hagsveiflur í kerfinu.  Þessi einfalda breyting yfir í heildarforðakerfi getur lækkað ríkisskuldir um hundruði milljarða, dregið úr verðbólgu, lækkað vexti og dregið úr skuldasöfnun almennings og fyrirtækja. Áhættan er lítil því ekki er erfitt að taka upp núverandi kerfi ef þessar aðgerðir skila ekki tilætluðum árangri.

 


Stjórnandi eða leiðtogi

Ég sat fyrir framan Imbann og hlustaði á Geir Haarde í Silfri Egils í dag sunnudaginn 14. september.  Á Geir hafa verið bornar þær sakir að forusta Sjálfstæðisflokksins sé slök og að ekkert sé gert í efnahagsmálum. 

Geir varðist þessum ásökunum fimlega í fyrstu en missteig sig síðan þegar leið á.  Það gerðist þegar hann útlistaði hvað hann væri að vinna að stórum málum í Stjórnarráðinu, þar væri mikið að gera og að hann mætti ekkert vera að því að hugsa um hvað fólki finnist um efnahagsmálin.  Það væri jú verið að vinna hörðum höndum að þeim málum leynt eða ljóst.

Þarna kom í ljós að Geir er stjórnandi og örugglega góður sem slíkur.  En hann missteig sig á leiðtogahlutverkinu.  Það skiptir öllu máli fyrir leiðtoga hvað fólki finnst og hver umræðan er í þjóðfélaginu.  Svo ég beri þetta saman við Davíð að þá virtist hann ætíð skynja um hvað umræðan í þjóðfélaginu snérist og koma vel undirbúinn í viðtöl og fá bylgjuna með sér.  Það er einfaldlega munurinn á stjórnanda og leiðtoga.  Þess vegna sigraði hann kosningarnar öll þessi ár.  Menn læra ekki að verða leiðtogar.  Það er hæfileiki sem innifelur í sér karisma og tilfinningu fyrir því hvernig á að LEIÐA þjóðina í gegnum súrt og sætt.

Stjórnanda og leiðtoga er hægt að líkja saman við bókara og viðskiptafræðing.  Bókarinn hugsar í einu ári þe að gera upp árið og skoða útkomuna.  Viðskiptafræðingurinn skoðar núvirði af fimm ára fjárfestingu fyrirtækisins mtt fyrirliggjandi fyrirætlana. 

Stjórnandinn stýrir fyrirtæki og er upptekinn af þeirri einingu sem hann stýrir og lítur ekki út fyrir hana.  Leiðtoginn vinnur að því að leiða stjórnendur og starfsmenn í fyrirtækinu með sér að fyrirfram skýrum markmiðum.

Einhvern veginn sat ég eftir með þessar skilgreiningar í höfðinu að þættinum loknum og var leiður yfir þeim.  Geir ætti að líta út fyrir Stjórnarráðið og einbeita sér að því að leiða fólkið í landinu, sem kaus hann sem leiðtoga en ekki eingöngu sem stjórnanda í Stjórnarráðinu, ma. í gegnum þá kjararýrnun og vonandi þjóðarsátt tengda þeim, sem framundan eru hjá okkur Íslendingum á næstu misserum.


Kaup OR á HS

Ég hef undanfarið velt fyrir mér tilgangi Orkuveitu Reykjavíkur í hlutakaupum á Hitaveitu Suðurnesja.  Fyrst keyptu þeir um 15% og nú aftur 15% af Hafnarfjarðarbæ.  Seinni 15% kaupa þeir á 7 milljarða, hlut sem er metinn á um 5 milljarða.  Ég man ekki hvað þeir gáfu fyrir fyrri 15% en sjálfsagt einhverja milljarða þar.  Hvaða hagsmunir eru þarna yfirleitt með kaupunum?  Ekki fá þeir ráðandi hluta með þessu brölti né annan sýnilegan ágóða.  Eru kosnir fulltrúar höfuðborgarinnar að leika sér með fé Reykvíkinga á ábyrgðalausan hátt?  Þetta fer allavega lágt.

Af pólitísku brölti og lífinu sjálfu

Maður veltir fyrir sér hvaða lærdóm má draga af öllu bröltinu í Ráðhúsinu síðustu mánuði og hvernig má heimfæra þessa atburði og afleiðingar þeirra yfir á daglega lífið.  Pólitíkin er ekkert annað er lífið sjálft.  Við erum dæmd eftir framkomu okkar og gjörðum.

Ég var mikið sammála mömmu hans Simma (eða Jóa) á Bylgjunni í gærmorgun þegar þeir félagar báru upp við hana mannaskiptin þar.  Hún sagðist sakna staðfestu í borgarmálunum.

Lítum til baka rúma þrjá mánuði og skoðum stöðuna þegar Björn Ingi hljóp úr sæng Sjálfstæðismanna í flýti.  Þá sátu Framsóknarmenn inni með mikil áhrif og höfðu góð tækifæri til að koma sínum málum að í Borginni.  Björn Ingi hafði auða braut framundan og mikinn meðbyr.  Hann ákvað þá, í sýnilegri fljótfærni og flensu, að sækja í fang þremeninganna og stofna kvartett í stað þess að taka á aðsteðjandi vandamálum og leysa þau.  Duett hlýtur að eiga auðveldara með samhæfingu en kvartett.

Afleiðingar þessarar stundaákvörðunar, að hlaupast undan merkjum án þess að takast á við aðsteðjandi vandamál, þekkja allir. 

Ég held að mottó sögunnar sé einfalt, tökum á vandamálunum í stað þess að hlaupast undan þeim og yfir í næstu sæng.  Oftast er grasið ekki grænna hinu megin sprænunnar.  Hjónabönd, vinátta og öll samskipti hljóta að falla undir þessa skilgreiningu.  

Og annað sem heimfæra má.  Hverjir eru þeir pólitíkusar sem hafa endst lengst ?  Þar hlýtur heiðarleiki og það að vera sjálfum sér samkvæmur að koma sterkt inn.

 


Álvershugleiðing

Ég vil nú byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti stóriðju sem slíkri, enda er orkuframleiðslan okkar á Íslandi einhver sú grænasta sem um getur á hnettinum.

Á að stækka Álverið í Straumsvík eða ekki.  Svarið er í raun mjög einfalt.  NEI.  Og rökstuðningurinn er einfaldur.  Þetta er í raun spurning um skammtíma- eða langtímahagsmuni höfuðborgarsvæðisins þar sem Hafnarfjörður situr í öndvegi.  Staðsetningin á Álverinu er barn síns tíma.  Ég segi bara það sem ég hef ekki heyrt neinn þora að segja í þessari umræðu.  Álverið í Straumsvík má bara fara alveg, þ.e. loka vegna stærðaróhagkvæmni.  Það er nóg framboð af verðandi Álverum á landinu um þessar mundir.  Starfsmennirnir í Straumsvík verða örugglega velkomnir í Helguvíkina eftir nokkur ár.  Meginmálið er að Álverssvæðið allt verður GULLS ígildi eftir nokkur ár svo ég tali nú ekki um sjávarlóðirnar að Straumsvík og áleiðis út á Vatnsleysu.  

Hvað varðar tekjur, atvinnutækifæri og auðlindauppsprettuna samfara núvernadi stækkandi álveri að þá segir reynslan að það opnast ALLTAF nýjar dyr þegar aðrar lokast að baki.

 


Klámtimburmenn

Jæja þá eru flestir sem tóku þátt í múgæsingunni gegn klámráðstefnunni
komnir með timburmenn yfir æsingnum.  Það gleymdist nefnilega í
miðju kófi að greina á milli óheftst ferðafrelsis hinna ýmsu skoðana-
og þjóðfélagshópa og hinna sem stunda ólöglega starfsemi á milli
landa.  Fordómar hljóma samfellt fyrir mér í þessu máli. 
Þarna á milli er þunn lína þe. að skilja á milli þess, eins og einhver
sagði, að fylgja prinsippum sínum annars vegar og hins vegar að fylgja
eftir múgæsingunni hugsunarlaust.  Þá er líka kaldhæðnislegt að
hótelin í bænum, veit ekki með Söguna, eru að selja viðskiptavinum
sínum aðgang að klámefni.  Ef ekki bara sama efni framleitt af
sömu klámframleiðendum var meinað að koma til landsins.  Margt er
skrítið í kýrhausnum.

The inconvenient truth

Ég sá þessa mynd um daginn og hún hafði virkileg áhrif á mig.  Al Gore er virkilega góður þarna.  Meginþemað er einfalt:  Hvað getur þú gert fyrir umhverfið og heiminn án þess að gera stöðugt kröfur á aðra hvað varðar umhverfisvernd.  Hvað ástunda grænir pólitíkusar heima hjá sér og hvað get ég sjálfur gert til að minnka mengun á jörðinni.

Það er td athyglisvert að svarta ruslatunnan fyrir utan hjá mér tekur bara við öllu þegjandi og hljóðalaust.  Maður getur sett í hana allskonar blöndu af matarleyfum (sem skapa meira metan), pizzukassa og restrusl.  Engar athugasemdir eða hvatning að öðru leyti.  Ég hef búið erlendis þar sem allir matarafgangar fóru sér, pappinn fór sér og afgangurinn til hliðar.  Það var bara ekki um annað að ræða en að skipta þessu svona upp.  Annars lenti maður einfaldlega í veseni með ruslið.  Ætti að heimfæra á Íslendinga.

Allavega leit ég mér nær eftir þessa mynd og ég held að fleiri ættu að gera það. 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband